Ársskýrsla stjórnar 2023
Updated: Nov 11
Skýrsla stjórnar 2023
Í stjórn eru: Eiður Gils Brynjarsson, Jóhann Gunnar Jónsson, Gunnar Auðunsson, Elín Sara Færseth,
Þóra Brynjarsdóttir, Ólafía Lóa Bragadóttir og Vilhjálmur Axelsson.
Stjórnin fundaði 12 sinnum á tímabilinu.
Í desember sendum við umsókn til LH um reiðvegafé, gerðum áætlun um hvar við vildum sjá nýja
vegi, hvar við myndum vilja bæta í og laga. Við fengum 800þúsund í styrk frá LH og 500þúsund frá
Reykjanesbæ.
Á lokahófi ÍRB var Jóhanna Margrét fulltrúi okkar sem hestaíþróttamaður Mána. Þar var einnig sú
nýjung að tilnefna sjálfboðaliða félaganna, stjórn ákvað að Björn Viðar Ellertsson væri okkar
sjálfboðaliði þar sem hann er duglegur að aðstoða okkur þegar á þarf að halda.
Jóhann Gunnar leitaði tilboða í ljós í höllina, ný LED ljós sem myndu spara kostnað. Rafholt endaði
með að styrkja félagið um ljósin og þökkum við þeim kærlega fyrir rausnarlegan styrk. Jóhann setti
upp ljósin eina helgina í byrjun febrúar, við þökkum Jóa fyrir það.
Báðar stóru hurðarnar í höllinni voru lagaðar í vetur og klárað að setja upp spegla.
Nýtt brunabótamat var gert á reiðhöll og hún færð af byggingastigi 4 í byggingastig 7. Við það
hækkaði brunabótamat hallarinnar úr 250 milljónum í 350 milljónir. Þar af leiðandi hækkuðu
tryggingar á húsinu.
Sandur var settur í stóragerðið.
Við vorum með tiltektardag 25.apríl sem heppnaðist vel.
Mánasíðan er orðin virkari.
Við fengum heimsókn frá Rúnari og Eiði, fulltrúum ÍTR og íRB, til að ræða samning ÍRB og Mána. Farið
var yfir með þeim helstu atriðið sem varða félagið, svo sem eignir, rekstur, skuldastöðu, félagsmál,
notkun hallar og svæðis. Fengu þeir að skoða reiðhöll og sýndur völlurinn. Þeir voru einnig upplýstir
um að verið væri að taka skjólstæðinga Hæfingarstöðvarinnar nokkur skipti í mánuði og leyfa þeim að
fara á hestbak og klappa hestum. Virtust þeir mjög jákvæðir gagnvart félaginu og starfi okkar og
hvöttu okkur að sækja um samninginn. Samningurinn hljóðaði uppá styrk fyrir rekstur á höllinni,
viðhald á reiðvegum og styrk til barnastarfs Mána, alls um 5 milljónir á ári. Frá 2019 höfum við fengið
1.200.000 frá ÍRB á ári. Stjórn ÍTR kom svo í heimsókn til okkar og fékk góða kynningu á starfinu
okkar. Samningur okkar við RNB er kominn inn á fjárhagsáætlun og verður vonandi samþykktur.
Stjórnin hefur verið í sambandi við RNB vegna deiliskipulags hverfisins. Lítið virðist vera búið að
gerast og er þetta í einhverri biðstöðu.
Firmakeppni Mána var haldin 23.maí. Þátttaka var góð og góð stemming í pylsupartíi eftir mót.
Stjórnin fór á ársþing ÍTR í lok maí.
Stjórnin hefur ákveðið að setja niður skilti við innkeyrslur í hverfið, skiltin eru til upplýsinga um að
verið sé að aka inn á íþróttasvæði.
Reiðhöllin var þrifin og skrúbbuð í síðustu viku, þökkum við þeim sem aðstoðuðu okkur við það. Þrif á
rest verða kláruð innan tíðar og verður fótstokkurinn málaður fyrir veturinn.
Góð þátttaka hefur verið á viðburðum í vetur, má nefna að Ferða og Skemmtinefndin hélt hrossablót
sem heppnaðist gífurlega vel og var vel sótt. Stóðu þau einnig fyrir smalamóti og mjög góð þátttaka
var í miðnæturreið hjá ferðanefnd. Námskeiðin hjá fræðslunefnd voru yfirfull í vetur og gott framboð
af námskeiðum. Mótin voru vel sótt og virkilega gaman að sjá svo marga Mánafélaga á opna
íþróttamótinu í vor. Nóg var um að vera hjá æskulýðsnefndinni í vetur þar sem margt var brallað.
Reiðskólinn var vel sóttur í sumar og mikið fjör þar. Dódó var með Hest í fóstur verkefnið í sumar.
Meistaradeildinni ásamt Meistaradeild ungmenna var varpað á sjónvarpið í höllinni í vetur og
myndaðist skemmtileg stemming að fylgjast með okkar fólki keppa.
Töltdívurnar voru fjölmennar og skemmtu sér vel á æfingum í vetur undir stjórn Gunnars Eyjólfssonar
og Sigurðar Kolbeinssonar.
Gunnar Auðuns og Birna hafa verið dugleg að gróðursetja á ýmsum stöðum í umhverfi okkar í ár eins
og undanfarin ár. Kristín Þórðardóttir gróðursetti einnig í sumar.
Eins og allir vita þá tók hún Jóhanna Margrét Snorradóttir þátt á heimsmeistaramótinu á honum
Bárði frá Melabergi, þar stóðu þau sig feikna vel og gerðu sér lítið fyrir og sigruðu töltið og urðu
samanlagðir sigurvegarar í fjórgangsgreinum. Fyrr í sumar urðu þau þrefaldir íslandsmeistarar. Þessi
árangur er einstakur og verður seint toppaður. Innilegar hamingjuóskir Hanna Magga. Við óskum
einnig ræktendum, Gunnari Auðunssyni og Guðbjörgu Þorvaldsdóttur, og eigendum Bárðar, Gunnari
og Snorri Ólasyni, til hamingju með glæsihestinn Bárð frá Melabergi.
Stjórn þakkar félagsmönnum fyrir árið
Stjórn Mána
Recent Posts
See AllStjórnin hvetur þá félaga sem voru duglegir að keppa á tímabilinu til að senda keppnisárangur sinn á gjaldkeri@mani.is eigi siðar en 10....
Comments